Handbolti

Megum ekki láta þá stjórna hraðanum

Ólafur Gíslason
Ólafur Gíslason
"Það er alveg á hreinu að okkur verður ekki fyrirgefið ef við töpum þessum leik og það er það sem heldur okkur á tánum," sagði Ólafur Haukur Gíslason, fyrirliði Vals þegar Vísir spurði hann út í úrslitaleik liðsins gegn Gróttu í Eimskipsbikarnum í dag.

Valsmenn eru fyrirfram taldir mun sigurstranglegri, enda mæta bikarmeistararnir liði úr deildinni fyrir neðan. Ólafur segir ekkert vanmat í Valsliðinu.

"Æfingarnar okkar undanfarið hafa verið mjög góðar og það er nauðsynlegt að menn séu einbeittir í verkefnið því það er erfitt. Það er erfitt að fara inn í leik sem á að vinnast og allir halda með litla liðinu, allir á móti okkur. Við vitum af því og ætlum að standast þetta," sagði Ólafur.

En hvað ber Valsmenn að varast hjá liði Gróttu? "Við megum ekki leyfa þeim að stilla upp. Þeir eru þyngri á sér en við, svo við getum kannski nýtt okkur hraðann, en ef þeir ná að stjórna hraðanum, gætum við lent í vandræðum. Þeir eru með sterka vörn og mjög góðan markmann," sagði fyrirliðinn.

"Við leggjum upp að spila okkar sterkustu vörn og fá í kjölfarið ódýr mörk úr hraðaupphlaupum. Þjálfarinn er líka búinn að segja okkur mikið frá því að við getum orðið fyrsta Valsliðið til að verða bikarmeistari tvö ár í röð og það er gott að hafa það í huga sem auka gulrót til að vinna."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×