Kvennalandslið Íslands í handbolta tapaði 28-22 fyrir Portúgal í fyrri vináttulandsleik þjóðanna í Portúgal í dag en staðan í hálfleik var 16-11 Portúgal í vil.
Stjörnukonan Harpa Sif Eyjólfsdóttir var markahæst hjá íslenska liðinu með fimm mörk en Elísabet Gunnarsdóttir og Ásta Birna Gunnarsdóttir skoruðu þrjú mörk hver.
Berglind Íris Hansdóttir varði 11 skot í markinu en samkvæmt heimasíðu Handknattleikssambands Íslands þá var íslenska liðið að spila talsvert undir getu í leiknum.
Liðin mætast aftur á morgun kl. 16.30 að íslenskum tíma en leikirnir eru liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir undankeppni EM sem hefst næsta haust.