Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic tók út leikbann í gær þegar lið hans Inter lék útileik við Chievo í ítölsku A-deildinni.
Inter hefði með sigri í gær tryggt sér ítalska meistaratitilinn og ef það hefði tekist, hefði Zlatan ekki fagnað sigrinum með félögum sínum því hann var í heimalandi sínu.
Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Zlatan hafi verið úti að versla í heimabæ sínum Malmö og furða sig á því að leikmaðurinn skuli ekki hafa kært sig um að vera með liði sínu þó hann væri í leikbanni.
Að matri ítölsku blaðanna þykir þetta renna stoðum undir að Ibrahimovic sé á leið frá Inter í sumar. Hann hefur m.a. verið orðaður við Real Madrid að undanförnu.