Ítalinn Fabio Cannavaro mun hætta að spila með Real Madrid í sumar og það er ekki klárt að hann fari strax til Ítalíu eins og búist var við.
Hinn 35 ára gamli Ítali hefur lýst því yfir að hann vilji gjarna enda feril sinn á sama stað og hann hóf hann - hjá Napoli.
„Það lið sem vill fá mig getur haft samband við umboðsmann minn. Ég er ekki að velta mér of mikið upp úr framtíðinni og ef ég hætti núna væri ég samt stoltur af mínum ferli. Ég er aðeins að hugsa um hvernig Real getur náð Barcelona í spænska boltanum," sagði Cannavaro.
Þessi tíðindi munu líklega vekja áhuga hjá Tottenham og Man. City sem hafa sýnt honum áhuga.