Viðskipti erlent

Bjartsýnin dvínar á Wall Street, hlutabréf falla í verði

Hlutabréfamarkaðurinn á Wall Street opnar með rauðum tölum í dag og greinilegt að bjartsýnin sem einkennt hefur markaðinn á síðustu dögum fer dvínandi.

Dow Jones vísitalan lækkar um 1,6% og Nasdaq um 1,8%. Mestar lækkanir eru hjá stóru bönkunum sem ekki stóðust álagsprófin í síðustu viku. Citigroup lækkar um 4,6%, Bank of America um 4,6% og Wells Fargo lækkar um 2,7%.

Sem dæmi um aðrar hreyfingar lækkar Alcoa, móðurfélag Fjarðaráls, um 4,3% en álverðið hefur gefið aðeins eftir í dag á markaðinum í London eftir nokkuð stöðugar hækkanir alla síðustu viku.

Douglas Cliggot sjóðsstjóri frá Greenwich segir í samtali við Bloomberg fréttaveituna að að markaðurinn hafi stigið of hratt og of mikið. Það sé hætta á að töluverð niðursveifla sé framundan.

Aðrir telja að lækkunin í dag sé blanda af hagnaðartöku og taugaveiklun einkum í kringum niðurstöðurnar af fyrrgreindu álagsprófi sem leiddi í ljós að rétt ríflega helmingur af 20 stærstu bönkum Bandaríkjanna þyrfti áfram á ríkisaðstoð að halda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×