Cristiano Ronaldo skoraði fyrra mark Real Madrid í 2-0 sigri á Villarreal í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Með því varð hann fyrsti leikmaðurinn í sögu Real Madrid sem skorað í fyrstu fjórum deildarleikjum sínum með félaginu.
Það var síðan Brasilíumaðurinn Kaka sem skoraði seinna markið úr vítaspyrnu en þetta var aftur á móti fyrsta markið sem hann skorar fyrir spænska félagið síðan að hann kom frá AC Milan.
Ronaldo skoraði tvívegis í sigri Real á Xerex um helgina og hafði áður skorað gegn Deportivo La Coruna og Espanyol. Hann skoraði markið sitt í kvöld eftir aðeins tveggja mínútna leik eftir að hafa einleikið upp að teignum og skorað með hnitmiðuðu skoti.