Ron Artest er ekki hættur að ganga fram af fólki en hann hefur nú viðurkennt að hafa neytt áfengis í miðjum leik á meðan hann spilaði með Chicago Bulls en það var á árunum 1999-2002.
Þá erum við ekki að tala um einn kaldan heldur grjótharðan. Artest valdi nefnilega að fá sér Hennessy koníak.
„Ég átti það til að fá mér Hennessy í hálfleik. Ég geymdi flöskuna í klefanum mínum. Ég keypti vínið venjulega bara í búð sem er rétt hjá höllinni," sagði Artest í viðtali við Sporting News-tímaritið.
Artest fer annars um víðan völl í viðtalinu og greinir meðal annars frá því að hafa drukkið mikið og reykt slatta af kannabisefnum þegar hann var 19 ára faðir.
Blaðið kemur annars út þann 7. desember næstkomandi.