Handbolti

Horfir til betri vegar hjá Stjörnunni

Úr leik með Stjörnunni í vetur.
Úr leik með Stjörnunni í vetur.
Það birtir til hjá Stjörnunni í Garðabæ sem hefur fengið nýjan styrktaraðila í handboltanum. Auk þess ætla bæjaryfirvöld að hlaupa undir bagga með skuldum handknattleiksdeildar félagsins.

Fjárhagsvandi handknattleiksdeildarinnar var í umræðunni í desember en þá var leikmönnum tilkynnt að ekki væri hægt að standa við launagreiðslur.

Það voru því gleðitíðindi þegar Tryggingamiðstöðin ákvað í vikunni að gera þriggja ára styrktarsamning við Stjörnuna enda ekki hlaupið að því að að fá slíka samninga nú á dögum.

Þór Jónsson, formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar, segir að þrátt fyrir þetta og niðurskurð á rekstri deildarinnar vanti enn nokkuð upp á til að endar nái saman. Þetta þýði ekki að hægt verði að greiða laun aftur.

Snorri Olsen, formaður Stjörnunnar, segir styrk bæjarins nema um 100 milljónum króna á þessu ári rétt eins og í fyrra. Eðlilega fari aðeins hluti af honum í handknattleiksdeild félagsins sem hafi þurft að afskrifa háar fjárhæðir þegar forsendur brustu fyrir greiðslu styrktarsamninga.

Snorri segir að bærinn hafi bætt við sjö milljónum til að dekka gamlar skuldir félagsins.

Fyrirsjáanlegt tap á rekstri handknattleiksdeildarinnar sé 15-20 milljónir, en hann býst við að þessar skuldir verði fullgreiddar á árinu. Aðrar deildir séu skuldlausar.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að að bókfært tap handknattleiksdeildar á síðasta ári hafi numið 43 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×