Önnur stór tíðindi voru í NBA-boltanum í dag þegar Ron Artest tilkynnti að hann væri á förum frá Houston Rockets til LA Lakers.
Trevor Ariza fer til Houston í staðinn en Ariza stóð sig afar vel með Lakers í vetur.
Ekki er ljóst hvort Artest geri þriggja eða fimm ára samning við Lakers en það er nánast búið að ganga frá öllum lausum endum í skiptunum.
Rimma Artest og Kobe Bryant í úrslitakeppninni um daginn er mönnum enn í fersku minni en kunnugir segja að það sé alls ekki illt á milli þeirra. Þvert á móti sé Kobe himinlifandi yfir því að fá Artest til félagsins.
Artest gat ekki setið á sér með að tilkynna fjölmiðlum tíðindin og sendi ESPN meðal annars sms-skilaboð þar sem hann staðfesti að vera á leið til LA.