Jose Mourinho og félagar í Inter Milan á ítalíu hafa eflaust glott út í annað þegar þeir sáu úrslitin í kvöldleiknum í A-deildinni. Genoa vann þá 3-2 sigur á tíu leikmönnum Juventus og fyrir vikið eru titilvonir þeirra svarthvítu nánast úr sögunni.
Thiago Motta skoraði tvívegis fyrir Genoa í leiknum og Raffaele Palladino skoraði sigurmark liðsins þegar tvær mínútur voru til leiksloka.
Alessandro Del Piero minnkaði muninn í 2-1 fyrir Juventus og Vincenzo Iaquinta náði reyndar að jafna metin í 2-2 eftir að Mauro Camoranesi hafði verið vikið af leikvelli á 65. mínútu.
Ósigur Juventus þýðir að forskot Inter á toppnum er nú níu stig þegar sjö umferðir eru eftir og fátt sem bendir til annars en að Inter vinni enn einn titilinn á Ítalíu.
Mikill hasar var í ítölsku A-deildinni í dag og til gamans má geta þess að átta rauð spjöld fóru á loft í leikjunum níu sem voru á dagskrá - þar af þrjú í grannaslag Lazio og Roma í Rómarborg.