Nítján af þeim tuttugu liðum sem leika í Seriu A-deildinni á Ítalíu hafa ákveðið að hætta samstarfi við Seriu B-deildina og stofna nýja úrvalsdeild þar í landi.
Þetta er gert að fyrirmynd ensku úrvalsdeildarinnar sem var stofnuð árið 1992. Við það fengu liðin í efstu deild í Englandi stærri hluta af sjónvarpstekjunum þar í landi og í dag er enska úrvalsdeildin sú ríkasta í heimi.
Ákvörðunin í dag var tekin eftir að ekki tókst að komast að samkomulagi við félögin í Seríu B-deildinni um fjármál.
Talið er að aðeins Lecce hafi greitt atkvæði gegn þessu en liðið er í fallslag í deildinni nú.
„Við höfum stofnað nýja úrvalsdeild í stað fyrir Seríu A," sagði Maurizio Zamparini, forseti Palermo, eftir fund forráðamanna félaganna í dag. „Í þetta sinn er okkur alvara. Ég er ekki ánægður en þetta var nauðsynlegt."
Deildin mun heita Lega Calcio Serie A en þetta þýðir að framtíð Seríu B-deildarinnar er í óvissu. Mörg félög í deildinni hafa átt í fjárhagserfiðleikum í vetur.