Michel, fyrrum landsliðsmaður Spánar og leikmaður Real Madrid, mun stýra spænska liðin Getafe í síðustu fimm umferðum spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta en Victor Munoz var rekinn á mánudaginn eftir 2-1 tap á heimavelli á móti Villarreal.
Getafe-liðið er í 17. sæti í deildinni aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti. „Michel hefur reynsluna til þess að klára þetta verkefni en annars er þetta í höndum leikmanna okkar," sagði forseti félagsins, Angel Torres.
„Michel þekkir liðið vel, hann hefur komið á æfingar og er félagi í klúbbnum. Ef allt gengur upp þá mun ég gefa honum tækifæri til að halda áfram með liðið," sagði Angel Torres.
Michel er 46 ára gamall en hann lék á sínum tíma 66 landsleiki fyrir Spán og hefur þjálfað bæði hjá Rayo Vallecano og Real Madrid Castilla í neðri deildunum. Þetta verður í fyrsta sinn sem hann stýrir liði í úrvalsdeildinni.
Fyrsti leikur Getafe undir stjórn Michel verður á móti Real Mallorca á útivelli á sunnudaginn.