Skoðun

Það sem sameinar

Ögmundur Jónasson skrifar
Við Þorsteinn Pálsson, fyrrum ritstjóri, höfum skipst á skoðunum í Fréttablaðinu um það hvort skoðanamunur í ríkisstjórn sé veikleikamerki eða hvort hann vitni um gott pólitískt heilsufar. Tilefnið er gagnrýni mín á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þá stefnu sem hann vill að ríkisstjórnin fylgi. Þorsteinn gefur sér í svari sínu til mín að stefna ríkisstjórnarinnar í efnahags- og ríkisfjármálum sé einvörðungu reist á áherslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Vissulega setur AGS ríkisstjórninni strangar skorður en þar með er ekki sagt að við séum honum undirseld í einu og öllu. Í kosningabaráttunni og í aðdraganda þess að ríkisstjórnin varð til gekk hvorki ég né aðrir sem sæti eiga í ríkisstjórninni AGS á hönd.

Á táknrænan hátt héldu formenn ríkisstjórnarflokkanna fundi sína í Norræna húsinu, þeir halda fréttamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu og stjórnarflokkarnir héldu sameiginlegan þingflokksfund í Þjóðminjasafninu. Skilaboðin eru: Þetta er ríkisstjórn sem vill vera þjóðleg norræn velferðarstjórn. Ef stjórnarflokkarnir hefðu viljað senda frá sér boð um annað hefðu þeir sett fundi sína niður við Sæbraut, eða Borgartún.

Þeir sem þekkja til norræna velferðarsamfélagsins annars vegar og stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hins vegar vita að þegar þetta tvennt á að fara saman verður úr togstreita. Það er staðreynd að ekki er meirihluti fyrir því að vísa AGS frá þegar í stað. Við þær aðstæður lít ég á það sem mitt hlutverk og ríkisstjórnarinnar að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda uppi merki velferðarsamfélagsins. Þetta er sá „pólitíski veruleiki," svo notað sé orðfæri Þorsteins Pálssonar, sem ég vil horfast í augu við. Það er hann sem sameinar ríkisstjórnina og gerir hana frábrugðna frjálshyggjustjórn. Mismunandi áherslur um hve langt skuli gengið í tilteknum málum veikja ekki ríkisstjórn heldur styrkja eins og jafnan gerist þegar opinská og heiðarleg umræða fer fram. Þá verður lýðræðið lifandi.

Eða telur Þorsteinn Pálsson að ráðherrar eigi að skipta sjálfkrafa um skoðun af því að þeir verða ráðherrar? Röksemdir eiga að fá okkur til að skipta um skoðun, ekki félagsleg staða. Opin lýðræðisleg umræða, skoðanaskipti, sem byggjast á upplýsingum, ekki hagsmunum, á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, á kjarasamningsgerð og Icesave-samningsdrögunum gera íslensk stjórnmál og íslenskt þjóðfélag sterkara og betra og eru eina leiðin sem okkur er fær upp úr því kviksyndi frjálshyggjunnar sem við lentum í.

Höfundur er heilbrigðisráðherra.










Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×