AC Milan heldur enn í veika von um ítalska meistaratitilinn eftir 1-0 sigur á sjóðheitu liði Cagliari í dag.
Hollendingurinn Clarence Seedorf skoraði sigurmark Milan á 66. mínútu þegar hann renndi boltanum í tómt markið eftir að markvörður gestanna lenti í samstuði. Cagliari hafði unnið fimm af sex síðustu leikjum sínum.
David Beckham var í byrjunarliði Milan, en Filippo Inzaghi var einn frammi í fjarveru þeirra Andriy Shevchenko, Marco Borriello, Ronaldinho, Kaka og Pato.
Milan er í þriðja sæti deildarinnar, 11 stigum á eftir grönnum sínum í Inter sem eru á toppnum. Inter vann 2-1 sigur á Bologna í gær.
Adrian Mutu skoraði sigurmark Fiorentina í uppbótartíma þegar liðið lagði Chievo 2-1 og smellti sér fyrir vikið í fjórða sætið.