Stórliðin LA Lakers og Boston Celtics töpuðu bæði í nótt og ljóst að það verða því tveir oddaleikír í NBA næsta sunnudag. Houston skellti Lakers, 95-80, og staðan í rimmunni 3-3 rétt eins og hjá Orlando og Boston eftir 83-75 sigur Orlando í nótt.
Houston byrjaði ótrúlega gegn Lakers í nótt. Komst í 17-1 og hafði drjúga forystu í leikhléi. Lakers byrjaði síðari hálfleik af sama krafti og Houston byrjaði leikinn og tókst að minnka muninn í tvö stig.
Þá sagði Houston hingað og ekki lengra. Steig á bensínið á nýjan leik og landaði að lokum sigri og tryggði sér þar með oddaleik á sunnudag.
„Ég hef ekki heyrt annað síðustu daga en að við séum ekki að fara til LA aftur. Strákarnir neituðu að trúa þvi," sagði Rick Adelman, þjálfari Houston, en Rockets-strákarnir hafa komið gríðarlega á óvart í rimmunni enda án Tracy McGrady og Yao Ming.
Dwight Howard kvartaði yfir því að fá boltann ekki nóg í fimmta leik Orlando og Boston. Hann fékk boltann í gær og skilaði 23 stigum og 22 fráköstum í sigri Orlando. Hann þarf að stíga upp einu sinni enn í rimmunni ef Orlando ætlar sér að komast í úrslit í Austurdeildinni.
„Dwight Howard hafði greinilega rétt fyrir sér þegar hann gagnrýndi þjálfarann sinn. Hann var ótrúlegur," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston.