Fótbolti

Berlusconi sárbændi Kaká að fara ekki

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Kaká hefur fagnað sínu síðasta marki með AC Milan.
Kaká hefur fagnað sínu síðasta marki með AC Milan. Nordicphotos/GettyImages
Silvio Berlusconi, eigandi AC Milan og forsætisráðherra Ítalíu, sárbændi Kaká um að vera áfram hjá félaginu. Kaká hefur boðað til blaðamannafundar á mánudaginn þar sem búist er við því að hann staðfesti samning sinn við Real Madrid.

Kaupverðið nemur 65 milljónum Evra sem gerir hann að dýrasta leikmanni heims.

„Ég sárbændi hann um að vera áfram hjá Milan," sagði Berlusconi við sjónvarpsstöð félagsins. „Ég gerði það fyrir nokkrum mánuðum og Kaká var áfram, þrátt fyrir fáránlegt boð upp á 105 milljónir Evra," sagði eigandinn, og vísar í boð frá Manchester City sem félagið samþykkti.

Kaká mun hafa verið ósáttur með að félagið skuli hafa verið tilbúið að selja sig í janúar.

Berlusconi mun samt sem áður ætla að hringja í Kaká um helgina til að tala aftur við hann, en ekki er búist við öðru en að samningurinn við Real Madrid gangi í gegn.

Berlusconi mun ætla að setja peninginn í leikmannakaup og er Arsenal-parið Emmanuel Adebayor og Cesc Fabregas efst á óskalistanum samkvæmt ítölsku pressunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×