Heil umferð fór fram í N1-deild karla í handbolta í kvöld. FH vann sigur á toppliði Fram, 39-35.
Staðan á toppi deildarinnar er jöfn og spennandi eftir úrslit kvöldsins en Haukar eru nú með sextán stig, rétt eins og topplið Fram, eftir 25-23 sigur á Val.
Valur er svo í þriðja sæti með fimmtán stig og hefði því getað komið sér á topp deildarinnar með sigri á Haukum í kvöld.
Þeir Aron Pálmarsson og Guðmundur Pedersen skoruðu níu mörk hvor fyrir FH í kvöld og Bjarni Fritzson skoraði sex mörk í sínum fyrsta leik fyrir FH.
Rúnar Kárason var markahæstur hjá Fram með ellefu mörk en Guðjón Finnur Drengsson kom næstur með fimm.
Staðan í hálfleik í leik Hauka og Vals var 14-9, Haukum í vil. Sigurbergur Sveinsson var markahæstur hjá heimamönnum með sjö mörk og Freyr Brynjarsson kom næstur með fjögur. Hjá Val skoraði Fannar Friðgeirsson flest mörk eða fimm talsins. Heimir Örn Árnason skoraði fjögur mörk fyrir Val.
Þá gerðu Stjarnan og HK jafntefli, 28-28.
Víkingur vann sinn fyrsta sigur í deildinni í kvöld er liðið lagði Akureyri, 27-25, norðan heiða.
Víkingur byrjaði mjög vel í leiknum og hafði 14-7 forystu í hálfleik. Einar Örn Guðmundsson skoraði sjö mörk fyrir Víking og Sveinn Þorgeirsson fimm.
Aðeins fjórir menn komust á blað í liði Akureyrar í kvöld. Jónatan Magnússon var langmarkahæstur og skoraði fimmtán mörk en það dugði sem fyrr segir ekki til.
Akureyri er í fimmta sæti með tólf stig, HK í því sjötta með ellefu og Stjarnan í sjöunda sæti með sjö stig. Víkingur er enn í neðsta sæti en er nú með þrjú stig.
Handbolti