Handbolti

Haukar hefndu ófaranna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurbergur Sveinsson skoraði níu mörk fyrir Hauka gegn FH í kvöld.
Sigurbergur Sveinsson skoraði níu mörk fyrir Hauka gegn FH í kvöld. Mynd/Anton
Haukar styrktu stöðu sína á toppi N1-deildar karla með tólf marka sigri á grönnum sínum í FH, 34-22.

Það munaði miklu að hvorki Aron Pálmarsson né Ólafur Guðmundsson gátu leikið með FH í kvöld vegna meiðsla. Staðan í hálfleik var 15-9, Haukum í vil.

Sigurbergur Sveinsson skoraði flest mörk Hauka eða níu talsins. Elías Már Halldórsson kom næstur með sjö mörk og Freyr Brynjarsson sex.

Hjá FH var Örn Ini Bjarkason markahæstur með fimm mörk. Þeir Hjörtur Hinriksson og Sigursteinn Arndal skoruðu fjögur hvor.

Heil umferð fór fram í deildinni í kvöld. Valur fylgir fast á hæla Hauka en liðið vann góðan sigur á HK í kvöld, 28-25.

Staðan í hálfleik var 13-11, Val í vil. Arnór Þór Gunnarsson skoraði sex mörk fyrir Val og þeir Elvar Friðriksson og Fannar Friðgeirsson fjögur hvor.

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði níu mörk fyrir HK og Valdimar Þórsson sex.

Þá var mikil spenna í viðureign Akureyrar og Fram norðan heiða en leiknum lauk með jafntefli, 21-21, en Fram var með forystuna í hálfleik, 12-11.

Andri Snær Stefánsson skoraði sjö mörk fyrir Akureyri og Goran Gusic fjögur. Rúnar Kárason og Andri Berg Haraldsson voru markahæstir í liði Fram með sjö mörk hvor.

Stjarnan vann svo nauman sigur á Víkingi, 20-19, í botnslag deildarinnar. Staðan var jöfn í hálfleik, 10-10.

Vilhjálmur Halldórsson skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Fannar Örn Þorbjörnsson fimm. Sverrir Hermannsson skoraði níu mörk fyrir Víking.

Haukar eru nú með 20 stig í efsta sæti deildarinnar en Valur kemur næst með nítján. Fram er nú í þriðja sæti með sautján stig en FH er með sextán.

HK og Akureyri eru jöfn að stigum með þrettán stig, Stjarnan er með níu og Víkingur í neðsta sæti með fimm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×