Nokkuð hefur verið um hræringar á leikmannamarkaðnum í NBA deildinni undanfarna daga, en félagaskiptaglugginn í deildinni lokast í kvöld.
Chicago Bulls og Sacramento Kings lögðu grunninn að leikmannaskiptum í gærkvöld þar sem Chicago sendir Argentínumanninn Andres Nocioni, Drew Gooden, Michael Ruffin og Cedric Simmons til Sacramento í skiptum fyrir þá Brad Miller og John Salmons.
Til að ná að kýla skiptin í gegn sagði Sacramento upp samningi við þá Quincy Douby og Sam Cassell til að búa til pláss í leikmannahópnum, en Cassell kom til Sacramento frá Boston á dögunum.
Michael Ruffin var svo sendur til Portland í skiptum fyrir Ike Diogu.
Ekki hefur verið gengið formlega frá skiptunum en ekki er útilokað að bæði lið eigi enn eftir að versla meira áður en fresturinn rennur út í kvöld.