Roma vann heldur betur dramatískan sigur á Catania í ítalska boltanum í dag. Það var gamla brýnið Christian Panucci sem skoraði sigurmarkið á lokamínútu leiksins en Roma vann 4-3.
Roma komst í 1-0 þökk sé Simone Perrotta sem skoraði tvö mörk fyrir Roma í dag.
Catania jafnaði en Roma svaraði með tveim mörkum og virtist vera að sigla sigrinum í örugga höfn.
Catania neitaði gefast upp og jafnaði leikinn. Það var fátt sem benti til annars en að leiknum myndi lykta með jafntefli þegar Panucci steig upp og skoraði sigurmarkið.