Hin sögufrægu lið Boston Celtics og LA Lakers geta í nótt tryggt sér sæti í undanúrslitum NBA deildarinnar með sigrum í leikjum sínum.
Boston er yfir 3-2 í einvígi sínu gegn Orlando í annari umferð Austurdeildarinnar og getur komist áfram með sigri í Orlando í kvöld.
Það sama er uppi á teningnum hjá LA Lakers, sem rústaði Houston 118-78 á heimavelli í síðasta leik og reynir að klára dæmið í Texas í kvöld.
Leikur Houston og LA Lakers hefst klukkan 1:30 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Fari svo að Orlando og/eða Houston jafni metin í 3-3 í rimmum sínum í nótt, verða oddaleikirnir á sunnudagskvöldið.
Sigurvegarinn í einvígi Boston og Orlando mætir Cleveland í úrslitum Austurdeildar og það lið sem fer áfram úr einvígi Lakers og Houston mætir Denver í úrslitum Vesturdeildar.
Stöð 2 Sport verður með beinar útsendingar frá flestum leikjunum í úrslitum deilda og öllum leikjunum í lokaúrslitunum.