Barcelona hefur nú aðeins fjögurra stiga forskot á toppi spænsku deildarinnar eftir að Real Madrid vann góðan 4-2 útisigur á Sevilla í kvöld.
Gulldrengurinn Raul skoraði þrennu fyrir Real Madrid í leiknum og Brasilíumaðurinn Marcelo innsiglaði sigurinn með marki í uppbótartíma.
Renato og Diego Capel skoruðu í sitt hvorum hálfleiknum fyrir Sevilla, sem situr enn í þriðja sæti deildarinnar þrátt fyrir að hafa tapað fjórða leik sínum í röð.
Það er því ljóst að lokaspretturinn á Spáni verður æsilegur þar sem Real og Barcelona eigast við í leik ársins næsta sunnudag.