
„Hættum nú þessum kjánaskap góðir þingmenn“

Þuríður Backman, varaforesti Alþingis, taldi rétt að hefja fundinn og meta síðar í dag hvernig tækist að fylgja áætlun. Á dagskrá var stjórnarskrárfrumvarp ríkisstjórnarinnar en 22 sjálfstæðismenn eru á mælendaskrá.
Björn Bjarnason undraðist að Þuríður gæti ekki kveðið skýrar á um framhaldið og hvort hlé yrði gert á þingfundi vegna framboðsfundarins á Ísafirði. „Ég óska eftir því að hæstvirtur forseti úrskurði strax svo þingmenn átti sig á því hvernig unnt er að standa að þessum málum," sagði Björn.
Mörður kvaðst vera ýmsu vanur en sagðist aldrei hafa heyrt annan eins málaflutning. Hann spáði því að þegar Reykjavíkurmótið í knattpsyrnu hefjist muni Sigurður Kári Kristjánsson fara fram á frí.
„Og næst þegar Björn Bjarnason fer næst í saumaklúbb mun hann krefjast þess að þingið stöðvist. Hættum nú þessum kjánskap. Hættum nú þessum kjánaskap góðir þingmenn," sagði Mörður.
„Þetta var nú með því ótrúlegara sem ég hef heyrt hér í þinginu," sagði
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði fráleitt að bera lýðræðislega framboðsfundi saman við kappleiki og saumaklúbba.
Tengdar fréttir

Tillögu Þorgerðar hafnað
Tillaga Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um að stjórnarskrárfrumvarpið yrði sett aftur fyrir mikilvægari mál á dagskrá Alþingis var felld í dag. Þorgerður taldi brýnt að ræða frumvarp Össur Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, um heimild til samninga um fyrirhugað álver í Helguvík. 31 þingmenn voru andsnúnir tillögu Þorgerðar en 20 greiddu atkvæði með henni. 12 voru fjarstaddir.

Algjörlega gjörsamlega óskiljanlegt
Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði það algjörlega gjörsamlega óskiljanlegt hvernig ríkisstjórnin þráast við. Þessi orð lét Illugi falla í umræðum um fundarstjórn forseta sem nú fer fram á Alþingi. Hart er tekist á og vilja sjálfstæðismenn fresta umræðum um stjórnarskrá og afgreiða mál er snerta fyrirtæki og heimili í landinu eins og þeir orða það.