Framherjinn Charlie Villanueva hjá Milwaukee Bucks í NBA deildinni fékk skammarræðu frá þjálfara sínum Scott Skiles í gær eftir að upp komst að hann bloggaði í hálfleik í leik gegn Boston á sunnudaginn.
Fjölmiðlar komust að því þegar þeir skoðuðu Tweeter-síðu Villanueva að ein færslan kom inn á síðuna í hálfleik á viðureign Milwaukee og Boston.
"Við komum Charlie í skilning um það að við viljum ekki sjá svona lagað gerast aftur. Við viljum ekki blása þetta úr samhengi, en við viljum ekki láta í það skína að okkur sé ekki full alvara með því sem við erum að gera," sagði Scott Skiles þjálfari.
Villanueva skilur viðbrögð þjálfarans. "Ég var með fulla einbeitingu í leiknum eins og hægt er að sjá þegar menn skoða hvernig ég spilaði, en mér datt ekki í hug að gert yrði mál úr þessu," sagði Villanueva.
Hér fyrir neðan má lesa færsluna sem kom inn á Twitter-síðu Villanueva í hálfleik.
"In da locker room, snuck to post my twitt. We're playing the Celtics, tie ball game at da half. Coach wants more toughness. I gotta step up."