Forráðamenn AC Milan hafa staðfest að varnarmaðurinn Alessandro Nesta muni gangast undir aðgerð vegna bakmeiðsla í fyrramálið, þar sem skurðlæknar munu freista þess að bjarga ferli hins 32 ára gamla fyrrum landsliðsmanns.
Nesta hefur ekki spilað einn einasta leik með Milan á leiktíðinni vegna bakmeiðsla sinna en hann var nýkominn úr stífri endurhæfingu í Bandaríkjunum. Bakið gaf sig hinsvegar aftur í vikunni og útlitið því orðið ansi dökkt hjá þessum frábæra leikmanni.
David Beckham hefur verið valinn í hóp Milan fyrir fyrri leik Milan gegn Bremen í Uefa bikarnum og það þykir sanna að meiðslin sem hann varð fyrir í grannaslagnum við Inter um helgina eru ekki alvarleg.
Brasilíumaðurinn Kaka getur hinsvegar ekki spilað gegn Bremen þar sem hann er enn að stríða við meiðsli á fæti.