Dwyane Wade var greinilega ekki á þeim buxunum að fara í sumarfrí þegar hann skoraði 41 stig í 98-72 stórsigri Miami Heat á Atlanta Hawks í sjötta leik liðanna í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt.
Atlanta gat tryggt sér sæti í næstu umferð með sigri en það varð fljótt ljóst í hvað stefndi þegar Miami vann fyrsta leikhlutann 32-18 og leit aldrei til baka eftir það.
Dwyane Wade átti skínandi leik með Miami og var aðeins tveimur stigum frá persónulegu meti sínu í úrslitakeppni sem hann setti í lokaúrslitunum árið 2006.
Michael Beasley skoraði 22 stig og hirti 15 fráköst fyrir Miami, en fyrir leikinn í gærkvöld hafði hinn ungi framherji verið frekar dapur í einvíginu.
Mike Bibby skoraði 20 stig fyrir Atlanta, öll í fyrri hálfleik.
Atlanta hefur nú tapað 13 af síðustu 14 útileikjum sínum í úrslitakeppninni, en liðið nýtur þess að vera á heimavelli í oddaleiknum á sunnudaginn.