Brasilíumaðurinn Kaká segist vera áhyggjufullur eftir að hann meiddist á nýjan leik í gær þegar AC Milan pakkaði Siena saman, 5-1, á útivelli.
Kaká var að spila sinn fyrsta leik síðan 7. febrúar og kom af bekknum í síðari hálfleik. Það var þó stutt gaman því hann fór aftur af velli skömmu síðar, meiddur á ný.
„Ég hef verulegar áhyggjur af þessu og veit ekkert hvenær ég get spilað á nýjan leik," sagði Kaká svekktur.
„Ég veit ekki hvað ég get gert. Þetta er sami verkur og ég var áður með. Ég fékk smá högg og er kominn á sama stað og áður. Ég veit ekki hvenær þetta mun jafna sig."
Það var ekki bara Kaká sem meiddist hjá Milan í gær því markvörðurinn Christian Abbiati meiddist einnig illa á hné og spilar ekki meira á þessari leiktíð.