Ítalski landsliðsfyrirliðinn, Fabio Cannavaro, mun gera eins árs samning við sitt gamla félag á Ítalíu, Juventus, þegar samningur hans við Real Madrid rennur út í lok júní.
Hinn 35 ára gamli miðvörður vakti litla hrifingu þegar hann yfirgaf Juventus árið 2006 þegar félagið var dæmt niður í B-deild. Endurkoma hans hefur því kallað á sterk viðbrögð stuðningsmanna sem líta á hann sem svikara.
Leikmenn eins og Alessandro Del Piero og Gianluigi Buffon héldu áfram að spila með liðinu sem er aftur komið upp í hóp þeirra bestu.
Cannavaro vann tvo meistaratitla með Juventus en þeir voru báðir dæmdir af félaginu þegar upp komst um svindlið.