Ótrúlegri sigurgöngu Barcelona á útivöllum lauk í gær þegar liðið gerði markalaust jafntefli við granna sína í Espanyol 0-0 í fyrri viðureign liðanna í konungsbikarnum.
Barcelona hafði fyrir leikinn unnið 13 útileiki í röð í öllum keppnum, en leikurinn við Espanyol í gær var líka sá fyrsti í síðustu 28 leikjum þar sem Börsungum tekst ekki að skora mark.
Barcelona tapaði fyrsta leiknum á tímabilinu fyrir Numancia á útivelli þann 31. ágúst, en síðan þá hefur liðið verið á mikilli siglingu.
Eldra metið yfir flesta útisigra í röð hjá Barcelona var átta leikir í röð sem sett var leiktíðina 1927-28, en liðið vann reyndar sjö útileiki í röð leiktíðina 2005-06.