Barcelona styrkti stöðu sína á toppi spænsku deildarinnar í knattspyrnu í kvöld þegar liðið vann nokkuð auðveldan sigur á Sporting Gijon 3-1 á heimavelli sínum.
Samuel Eto´o skoraði tvívegis fyrir Barcelona í fyrri hálfleik og Daniel Alves innsiglaði sigurinn á 65. mínútu áður en Kike Mateo minnkaði muninn þremur mínútum síðar.
Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekk Barcelona í kvöld og fékk að taka fimm mínútna sprett í lokin þegar hann kom inn fyrir Andres Iniesta.
Barcelona hefur 59 stig á toppi deildarinnar, tólf stigum meira en Real Madrid sem er í öðru sæti með 47 stig. Sevilla er í þriðja sæti með 38 stig og Valencia, sem mætir botnliði Osasuna í kvöld, hefur 37 stig í fjórða sætinu líkt og Villarreal sem er í fimmta sæti.