Franski framherjinn David Trezeguet virðist ekki eiga framtíð hjá Juventus en ítalska félagið reynir nú að nota hann sem gjaldmiðil til þess að fá leikmenn í staðinn fyrir hann.
Trezeguet var mikið meiddur á síðustu leiktíð og eftir að hann jafnaði sig á meiðslunum náði hann ekki að festa sig í sessi í byrjunarliði Torínóborgarfélagsins.
Juventus og Manchester City eru sögð samkvæmt ítölskum fjölmiðlum vera í viðræðum um skipti á Trezeguet og hinum brasilíska Elano sem hefur fallið aftar í gogunarröðinni hjá knattspyrnustjóranum Mark Hughes hjá City.
Trezeguet vill þó fá tækifæri til þess að tala við forráðamenn Juventus í byrjun júlí til þess að ræða framhaldið eftir níu ár hjá félaginu.
„Þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Ég er búinn að vera hjá félaginu í níu ár og þetta er því stór ákvörðun. Ég mun hitta forráðamenn félagsins í byrjun júlí og þá sjáum við til hvað gerist," segir Trezeguet í samtali við vefmiðilinn Calciomercato.com.
AC Milan og Roma eru einnig sögð hafa áhuga á Trezeguet.