Adriano Galliani varaforseti AC Milan hefur tekið fyrir sögusagnir um að ítalska félagið hafi hug á því að kaupa David Beckham frá LA Galaxy í sumar.
Galliani útilokar þó ekki að fá leikmanninn aftur á láni í janúar þegar tímabilið í bandarísku MLS-deildinni klárast, líkt og gert var á síðusta tímabili.
„Beckham veit að dyr AC Milan eru alltaf opnar fyrir honum en það eru engar líkur á því að hann komi til okkar fyrr en í janúar og þá á lánssamningi. Ég vona innilega að hann komi til okkar í janúar," segir Galliani.
LA Galaxy er talið vilja fá í kringum 11 milljónir punda fyrir Beckham en ensku úrvalsdeildarfélögin Chelsea og Tottenham eru sögð vera að skoða möguleikann á því að fá enska landsliðsmanninn í sínar raðir.