Viðskipti erlent

Fengu 80% af Landic Property fyrir tæpar 170 krónur

Vefsíðan business.dk greinir frá því að fjárfestingafélagið Trackside frá Berlín hafi fengið 80% eignarhlut í Landic Property í Danmörku svo gott sem gefins eða á eina evrum sem samsvarar tæpum 170 kr.

Þótt business.dk blási yfir verðinu á Landic er forstjóri félagsins Michael Sheikh ánægður með söluna. Hann segir að þetta hefði getað farið mun verr fyrir Landic.

Sheikh segir ljóst að eftir bankahrunið á Íslandi s.l. haust gat Landic ekki starfað áfram án raunverulegs eiganda. Síðan hafi verið leitað lausna á því vandamáli og eftir ráðgjöf frá Catella var ákveðið að halda dönsku, sænsku og finnsku eignarhlutunum saman og fá fjársterkan aðila til að yfirtaka þær gegn væntanlegum hagnaði í framtíðinni af minnihlutaeigninni sem eftir er í Landic.

„Hinn möguleikinn var að selja félagið í stykkjavís og við núverandi markaðsaðstæður hefði það komið mun verr út," segir Sheikh.

Trackside er í einkaeigu nokkurra fjársterkra einstaklinga og hefur hingað til aðaðlega einbeitt sér að fjárfestingum í hótelum í Þýskalandi en lætur einnig til sín taka í öðrum fasteignum. Þá á félagið stóran hlut í tölvufyrirtæki sem skráð er á markaðinn í London.

Business.dk segir að Trackside sé óskrifað blað á Norðurlöndunum en vitað er að félagið er stærra en Landic Property. Eignir Landic á Norðurlöndunum, það er Íslandi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, voru metnar á yfir 35 milljarða danskra kr.

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×