Brasilíumaðurinn Ronaldinho hristi loksins af sér slenið um helgina og átti virkilega góðan leik er AC Milan lagði Roma, 2-1. Hann skoraði meira að segja annað marka Milan.
Það hefur fátt gengið upp hjá Brassanum síðustu mánuði og hann segist loksins vera kominn á beinu brautina.
„Mér líður mjög vel núna. Eftir mikla vinnu líður mér vel líkamlega, tæknilega og andlega," sagði Ronaldinho sem hefur trú á því að hann hafi þaggað niður í gagnrýnisröddum en líklega þarf meira en einn góðan leik til þess.
„Ég stefni á að halda áfram á þessari braut því ég vil gleðja stuðningsmenn Milan. Við Pato sýndum einnig í þessum leik að við getum vel spilað saman. Okkur hentar vel að leika saman, ég legg upp og það hentar honum vel að skora," sagði Ronaldinho.