Þótt ótrúlegt megi virðast þá er Jose Mourinho með talsmann þó svo hann tali mikið sjálfur. Að sögn talsmannsins talaði Mourinho þó ekki við spænska blaðið El Mundo Deportivo á dögunum.
Blaðið birti viðtal við Mourinho þar sem hann lýsti því yfir að Inter myndi leggja Barcelona að velli í Meistaradeildinni. Talsmaðurinn segir að þetta viðtal sé uppspuni frá rótum.
Talsmaðurinn segir að Portúgalinn hressi muni aðeins tjá sig um leikina við Barcelona á skipulögðum blaðamannafundum í kringum leikina.
Mikil eftirvænting er fyrir leikina og sérstaklega í ljósi þess að aðalstjarna Inter síðustu ár, Zlatan Ibrahimovic, er nú í röðum Barca.