Jose Mourinho er greinilega mjög sáttur með lífið og tilveruna í Mílanó en Portúgalinn er nýbúinn að framlengja samning sinn við Internazionale til ársins 2012. Inter-leikur lokaleik tímabilsins í dag og verður mikil sigurveisla á San Siro vellinum enda varð liðið ítalskur meistari fjórða árið í röð.
„Ég er mjög ánægður með að vera áfram hjá Inter og ég er viss um að við getum gert enn betur á næstu árum," sagði Mourinho á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Atalanta í dag.
„Ég hefði fyrirfram talið það vera óhugsandi, eftir að hafa verið ástfanginn af Chelsea-liðinu, að geta fundið sömu tilfinningu hér eftir aðeins eitt ár. Það hefur samt gerst og ég er orðinn ástfanginn af Inter-liðinu," sagði Jose á sinn einstaka hátt.
„Þökk sé hreinskilni leikmanna og hversu vel allir hafa tekið mér hjá kúbbnum þá hef ég fengið mikla ástríðu fyrir Inter-liðinu," sagði Mourinho en fyrir aðeins viku var allt eins takið líklegt að hann myndi taka við Real Madrid í sumar. Nýr og glæsilegur samningur hefur örugglega samt hjálpað heilmikið að sannfæra hann um að vera áfram í herbúðum Inter.