LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers sitja á toppi NBA deildarinnar og bíða nú spenntir eftir æsilegu einvígi sínu við meistara Boston Celtics annað kvöld.
Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan eitt eftir miðnætti og þarna eigast við tvö efstu liðin í Austurdeildinni.
"Ég væri að ljúga ef ég segði að ég tæki þessu eins og hverjum öðrum leik," sagði LeBron James í samtali við staðarblöð eftir sigur Cleveland á Charlotte í gær.
"Við viljum auðvitað vinna eins marga leiki og við getum til að reyna að ná heimavallarréttinum í úrslitakeppninni," bætti stórstjarnan við.
Leikmenn Cleveland komu allir saman eftir leikinn og horfðu á síðustu mínúturnar í leik Boston og Houston í sjónvarpinu, en þar tapaði Boston fjórða leiknum sínum í síðustu sex og virðist í miklum vandræðum þessa dagana.
Cleveland hefur unnið 28 leiki og tapað aðeins sex, en Boston hefur unnið 29 leiki og tapað átta. Liðin eru í fyrsta og þriðja sæti í deildinni hvað varðar vinningshlutfall.