Stjörnubakvörðurinn Allen Iverson er sagður nálægt því að ná lendingu í sínum málum en hann hefur verið að leita að nýju liði til þess að spila með næsta vetur í NBA-deildinni.
Samkvæmt heimildum dagblaðsins The Charlotte Observer er fyrsta val Iversons, sem er fáanlegur á frjálsri sölu, að spila aftur undir stjórn Larry Brown hjá Charlotte Bobcats en Iverson og Brown voru saman hjá Philadelphia 76ers á sínum tíma.
Vefmiðillinn Dime Magazine vill reyndar meina að Iverson sé þegar búinn að semja við Bobcats en leikmaðurinn nefndi félagið á nafn í færslu á Twitter síðu sinni í vikunni.
„Ég er að gera mig kláran fyrir komandi tímabil. Þið getið bókað það. Ég er að bíða eftir símtali frá ykkur Charlotte, Miami, NY," stendur meðal annars í færslunni.