David Beckham átti góða endurkomu í lið AC Milan sem vann 5-2 sigur á Genoa á heimavelli í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi.
Þetta var fyrsti leikur Beckham síðan hann kom til liðsins um áramótin á lánssamningi frá LA Galaxy í Bandaríkjunum. Hann var einnig hjá liðinu á sama tíma í fyrra af sömu ástæðu.
Beckham spilaði hægra megin í þriggja manna sóknarlínu en vegna meiðsla Alexandre Pato og Clarence Seedorf spilaði hann framar á vellinum en hann á að venjast.
„Svona er Beckham gerður. Hann er algerlega af vilja gerður og vill gera allt sem hann getur til að hjálpa til," sagði knattspyrnustjórinn Leonardo eftir leikinn. „Við prófuðum hann í öllum mögulegum stöðum á vellinum í vikunni."
Marco Boriello skoraði tvö mörk fyrir Milan í leiknum og þeir Thiago, Ronaldinho og Klaas-Jan Huntelaar eitt hver. Þeir tveir síðastnefndu skoruðu sín mörk úr vítum. Beckham var svo tekinn af velli á 76. mínútu í stöðunni 5-1.
Heil umferð fór fram í ítölsku úrvalsdieldinni í gær en Inter er nú með átta stiga forystu á AC Milan á toppi deildarinnar. AC Milan á þó leik til góða.
Úrslit gærdagsins:
AC Milan - Genoa 5-2
Bari - Udinese 2-0
Cagliari - Roma 2-2
Sampdoria - Palermo 1-1
Siena - Fiorentina 1-5
Lazio - Livorno 4-1
Parma - Juventus 1-2
Atalanta - Napoli 0-2
Catania - Bologna 1-0
Chievo - Inter 0-1