Rachel Uchitel, fyrsta hjákona Tigers Wood af fjölmörgum, ætlar að fækka fötum fyrir karlatímaritið Playboy. Óvíst er hvenær myndirnar birtast, en samkvæmt fréttamiðlinum TMZ hefur hún þegar gert samning við Playboy um myndatökuna.
Uchitel neitaði að tjá sig um málið þegar TMZ innti hana eftir svörum. Samkvæmt samningnum þá getur hún hætt við myndatökuna hvenær sem er áður en hún fer fram, þannig að aðdáendur hennar geta ekki fagnað strax.
Hjákonur Tigers hafa margar hagnast vel á því að hafa hitt kylfinginn, en fréttastofur og tímarit borga mörg háar upphæðir fyrir viðtöl. Uchitel hefur vafalaust hagnast langmest, en sagan segir að hún hafi fengið eingreiðslu upp á 10 milljónir dollara fyrir að láta ekkert hafa eftir sér um samband sitt við Tiger.
Þá er talið að hún geti fengið um 500.000 til eina milljón dollara fyrir að sitja fyrir í Playboy.