Framtíð Brasilíumannsins Ronaldinho hjá AC Milan er í lausu lofti enda þarf leikmaðurinn líklega að taka á sig mikla launalækkun ef hann vill spila áfram fyrir félagið.
Sjálfur segist Ronaldinho vera afar ánægður með sína frammistöðu í vetur en hann hefur gengið í endurnýjun lífdaga hjá félaginu á þessu tímabili.
„Þetta var frábært ár fyrir mig. Það sem ég hef afrekað í ár er hvatning fyrir mig að halda áfram á sömu braut," sagði Brassinn.
„Ef ég á að vera heiðarlegur þá er ég ekkert að hugsa um framtíðina, aðeins að næla í öll stigin í lokaleikjum okkar. Ég mun hugsa um næsta ár þegar þessu tímabili er lokið," sagði Ronaldinho.