Francesco Totti hefur ákveðið að gefa aftur kost á sér í ítalska landsliðið en hann hefur ekkert spilað með landsliðinu síðan 2006.
Totti vill komast í liðið fyrir HM í sumar og klára landsliðsferilinn þar.
„Ég mun ákveða mig í apríl ef Lippi og strákarnir eru til í að fá mig aftur," sagði Totti. „Ég hef alltaf átt frábært samband við þjálfarann sem snýst um meira en fótbolta. Ég mun ekki gleyma því sem hann gerði fyrir mig í Þýskalandi. Hann beið alltaf eftir mér og veitti mér mikið traust."
Totti er farinn að huga að lokum ferilsins en hann vonast til þess að spila með Roma í fimm ár í viðbót. Eftir það ætlar hann að vinna á skrifstofu félagsins.
„Ég er allt of almennilegur til þess að verða þjálfari," sagði Ítalinn.