Listar af öllu tagi eiga upp á teninginn hjá tímaritum þessa dagana. Á miðvikudaginn valdi People 50 fallegustu manneskjur heims og nú í dag gaf breska útgáfa FHM út lista yfir kynþokkafyllstu konur heimsins.
Söngkonan Cheryl Cole er á toppnum annað árið í röð en listinn er valinn af lesendum FHM. Cole velti leikkonunni Megan Fox úr toppsætinu á sínum tíma og dúsir hún enn í öðru sæti. Undirfatafyrirsætan Marisa Miller er í þriðja sæti, söngkonan Frankie Sandford í því fjórða og fyrirsætan Keeley Hazell í fimmta sæti.
Twilight-stjarnan Kristen Stewart kemur ný inn á lista í sjötta sæti en söngkonan Britney Spears dettur úr fjórða í 44. sæti. Lady Gaga rétt nær inn í 92. sæti.
Af öðrum má nefna Scarlett Johansson í 23. sæti, Rihanna í 43., Beyonce í 64., Elin Nordgeren í 65. og Lindsay Lohan í 80.
Þá kemur sumum á óvart að Kate Moss skyldi ekki komast inn að þessu sinni. Þetta er í sextánda skipti sem FHM setur listann saman og segir tímaritið að áhuginn hafi aldrei verið meiri á honum.
Listann má finna á heimasíðu FHM.