Erlent

Næst hægt að reyna að sex árum liðnum

Líkan af geimrannsóknargervihnettinum Akatsuki var til sýnis á blaðamannafundi í síðustu viku.Fréttablaðið/AP
Líkan af geimrannsóknargervihnettinum Akatsuki var til sýnis á blaðamannafundi í síðustu viku.Fréttablaðið/AP
Japanskar geimrannsóknir urðu fyrir áfalli þegar mistókst að koma rannsóknargeimfari á sporbaug um Venus í síðustu viku. Geimfarið átti að vera á ferð í tvö ár og safna gögnum.

Rannsóknarfarið kallast Akatsuki, en nafnið merkir „dögun“. Á blaðamannafundi, sem haldinn var á þriðjudag þegar farið náði á áfangastað, upplýstist að samband hefði verið stopult við Akatsuki fyrr um daginn. Í gær kom svo í ljós að ekki hafði tekist að koma geimfarinu á braut um Venus þegar vélar þess voru ræstar á þriðjudag.

Geimrannsóknin var á vegum japönsku geimrannsóknarmiðstöðvarinnar (JAXA) sem sögð er búa við fremur þröngan kost, en verkefnið er með þeim stærstu sem JAXA hefur ráðist í.

Akatsuki hefði orðið fyrsti japanski hnötturinn til að komast á sporbaug um aðra plánetu. Þetta er þó ekki fyrsta tilraun Japana því þeir reyndu að koma rannsóknarhnetti til Mars árið 1998. Sú tilraun gekk illa vegna tæknilegra erfið­leika og var að lokum blásin af árið 2003.

Fulltrúar JAXA segja hins vegar að fullt samband sé komið á ný við Akatsuki þar sem hann er nú á sporbaug um sólina, eftir að aðdráttarafl hennar krækti í geimfarið. „Geimfarið virðist vera í lagi og mögulega getum við gert aðra tilraun til að koma því á sporbaug þegar það fer aftur framhjá Venusi eftir sex ár,“ sagði Hitoshi Soeno, vísindamaður hjá JAXA. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×