Fjöldahandtökur lögreglunnar í Kaupmannahöfn vegna mótmæla á loftslagsráðstefnunni fyrir ári voru ólögmætar.
Héraðsdómur í Kaupmannahöfn komst að þessari niðurstöðu fyrir helgi. Lögreglan handtók 905 manns í fjöldamótmælunum hinn 12. desember í fyrra. Hendur fólks voru bundnar með plastböndum í stað handjárna.
Fólkið þurfti að sitja í röðum á götu í allt að fjórar klukkustundir. Dómstóllinn segir að aðstæður fólksins hafi verið niðurlægjandi og því brot á Mannréttindasáttmála Evrópu.
Lögreglan var dæmd til að greiða þeim 250 manns sem kærðu handtökurnar skaðabætur. Lögreglan hyggst áfrýja.- þeb