Orlando Magic vann öruggan 105-89 sigur á Phoenix Suns í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en Phoenix-liðið var ekki mikil mótspyrna fyrir Dwight Howard og félaga enda án leikstjórnanda síns Steve Nash sem er meiddur á nára.
Dwight Howard skoraði 20 stig og tók 12 fráköst og Jameer Nelson var með 15 stig og 12 stoðsendingar í þessum þriðja sigri Orlando í röð. Grant Hill skoraði 21 stig fyrir Phoenix en varamaður Steve Nash, Goran Dragic, var með 10 stig og 4 stoðsendingar.
Phoenix Suns vann NBA-meistara Lakers á dögunum en fór illa út í ferðinni á Flórída þar sem liðið tapað samtals með 43 stiga mun í leikjum á móti Miami Heat og Orlando.
Wesley Matthews er að standa sig vel hjá Portland Trail Blazers í fjarveru Brandon Roy. Matthews sem kom frá Utah fyrir tímabilið var með 20 stig og 10 fráköst í 86-83 sigri Portland á Denver Nuggets. Matthews kom inn í byrjunarliðið fyrir Roy og hefur skoraði 25 stig að meðaltali í tveimur sigurleikjum.
LaMarcus Aldridge var með 24 stig og 10 fráköst fyrir Portland sem tryggði sér sigurinn með því að vinna fjórða leikhlutann 17-12. Carmelo Anthony skoraði 18 stig fyrir Denver og Arron Afflalo var með 16 stig og 11 fráköst.
Danny Granger skoraði 22 stig og Roy Hibbert var með 18 stig og 8 fráköst í 107-80 sigri Indiana Pacers á Los Angeles Clippers. Eric Gordon var með 19 stig fyrir Clippers-liðið sem hefur tapað 12 af 13 leikjum sínum á tímabilinu.
Úrslit leikja í NBA-deildinni í nótt:
Indiana Pacers-Los Angeles Clippers 107-80
Orlando Magic-Phoenix Suns 105-89
Portland Trail Blazers-Denver Nuggets 86-83