Búið er að aflétta rýmingu að hluta til á bæjum í kringum Eyjafjallajökul. Íbúar tuttugu bæja þurfa þó að finna sér annan svefnstað. Það er nákvæmlega sama tilhögun og var í gær.
Að sögn Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns á Hvolsvelli, þá gekk rýming mjög vel í kvöld. Hann segir alla varnagarða hafa staðið af sér flóðið sem reyndist minna en talið var í upphafi.
Þó flæddi eitthvað inn í Fljótshlíðina.
Aðspurður um tjón sagði hann að það væri of dimmt úti til þess að leggja mat á það núna. Það myndi þó skýrast á morgun.
Flytja þurfti alla íbúa á svæðinu til Hvolsvallar um kvöldmatarleytið þar sem vart hafði orðið við stórt flóð sem rann niður Gígjökul. Flóðið virðist hafa sjatnað á leiðinni.
Markarfljótsbrú stóð af sér flóðið en mestur straumurinn fór í gegnum tvö skörð sem voru gerð í veginn við brúna í gær.