Tennisdrottningin Maria Sharapova mun ekki baða sig í sviðsljósinu í Los Angeles lengur því kærastinn hennar, Sasha Vujacic, hefur verið sendur frá LA Lakers til New Jersey Nets.
Þrjú lið tóku þátt í félagaskiptunum. Nets sendi Terrence Williams til Houston, Lakers sendi Vujacic til Nets og fær í staðinn Joe Smith frá Nets. Valréttir í nýliðavalinu skiptu líka um hendur í þessum skiptum.
Joe Smith hefur víða farið á ferlinum og kippti sér ekki mikið upp við að flytja enn eina ferðina.
"Ég frétti bara af þessu þegar ég mætti í höllina til þess að spila. Þetta minnir á þegar ég fór frá Oklahoma og til Cleveland í annað sinn á ferlinum," sagði Smith spakur.