Fótbolti

Balotelli kominn á sölulista

Elvar Geir Magnússon skrifar
Vandræðagemsinn 19 ára, Mario Balotelli, hefur náð að koma sér aftur út í kuldann hjá Inter.
Vandræðagemsinn 19 ára, Mario Balotelli, hefur náð að koma sér aftur út í kuldann hjá Inter.

Ítalíumeistarar Inter hafa ákveðið að setja Mario Balotelli á sölulista eftir framkomu hans í undanúrslitaleiknum gegn Barcelona í gær.

Balotelli sendi áhorfendum tóninn eftir að hann fór illa að ráði sínu í skyndisókn Inter. Eftir að leikurinn var flautaður af grýtti hann treyju sinni í jörðina við litla kátínu varnarmannsins Marco Materazzi sem lét hann heyra það.

Undir kvöldið var svo greint frá því að stuðningsmenn hefðu veist að Balotelli á bílastæðinu fyrir utan San Siro. Öryggisverðir urðu að koma honum til bjargar.

Massimo Moratti, forseti Inter, vildi forðast það að selja Balotelli en hefur nú ekki meiri þolinmæði enda Balotelli verið til sífelldra vandræða á tímabilinu.

Jose Mourinho, stjóri Inter, var nýbúinn að taka Balotelli aftur í sátt eftir að hafa sett hann út í kuldann fyrr í vetur. Þá hafði leikmaðurinn til að mynda klæðst treyju erkifjendanna í AC Milan í ítölskum sjónvarpsþætti.

Talið er að ensku úrvalsdeildarliðin Arsenal og Manchester City hafi áhuga á Balotelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×