Lögreglan leitar nú að strokufanga, Guðbjarna Traustasyni, sem fékk sjö ára fangelsisdóm fyrir þátt sinn í Pólstjörnumálinu. Hann fékk dagsleyfi í gær en skilaði sér ekki á tilsettum tíma tilbaka.
Guðbjarni sigldi seglskútunni sem var hlaðinn fíkniefnum frá Noregi til Fáskúrsfjarðar í lok sumars 2007. Hann var handtekinn skömu eftir skútan lagðist að bryggju og hefur verið í fangelsi síðan. Í gær fékk hann svo sitt fyrsta dagsleyfi. Hann átti að skila sér aftur á Litla-Hraun í lok dags en lét ekki sjá sig. Lögreglan hefur leitað að honum síðan en Guðbjarni er ekki kominn í leitirnar. Fangelsismálayfirvöld líta málið alvarlegum augum.
„Ég held ég fari rétt með að svona hefur ekkert gerst í mörg ár. Ég held að þetta hafi síðast gerst 1995 eða 1996," segir Erlendur Baldursson, deildarstjóri hjá Fangelsismálastofnun.
Reglur um dagsleyfi verða endurskoðaðar í kjölfar þessa máls og Guðbjarni missir að öllum líkindum ýmis fríðindi sem hann hefur unnið sér innan veggja fangelsins.
„Nei, í sjálfu sér gerist það ekki. Þetta getur haft áhrif ýmsa hluti í sambandi við meðferð hans innan fangelsisins," segir Erlendur aðspurður hvort að dómur hans verði þyngdur vegna þessa. Hann hvetur Guðbjarna til að gefa sig fram sem fyrst.

